top of page

ÁHRIF SAMFÉLAGSINS

Samfélagið í dag hefur kennt okkur að útlitið skiptir máli og það hvernig við lítum út í augum annara sé eitthvað sem við ættum að hugsa um. Daglega sjáum við auglýsingar sem segja okkur hvernig við eigum að missa aukakílóin, hvítta á okkur tennurnar eða stækka varirnar. Í rauninni er hægt að segja að við búum á risastóru markaðstorgi þar sem stöðugt er verið að selja okkur hið,,fullkomna útlit”.  Sjónvarpsefni tekur einnig mikinn þátt í því að setja útlitsstaðla. Þættir eins og til dæmis Extreme Makeover, þættir sem snúast um að breyta útliti og fatastíl fólks geta haft mikil áhrif á hugsunarhátt fólks. Jafnvel efni sem ætlað er börnum hefur falið í sér mikla fitufordóma og niðurníðingu á stóru fólki. Dæmi um það má finna í þáttunum um Gretti þar sem ítrekað er nefnt að fita sé neikvæð og ógeðfellt eins og t.d „Ef hann þyngist meira þarf ég lyftara til að gera þetta.“ eða „Það er ekkert að honum. Ekkert nema þyngdin auðvitað.“ Þetta er allt að finna í barnaefni sem börnin meðtaka og vinna úr og þeim strax kennt á svona ungum aldri að það að vera feitur sé neikvætt. Þá strax eru komnir fitufordómar inn í heila ungra barna. Þegar þau læra þetta svona snemma er líklegra að þau byrji strax að hugsa um eigið útlit og tengja þá strax fitu við neikvæða hluti eins og ófegurð og óhamingju.

Það fer eftir því hvar þú elst upp hversu mikið þú hugsar um útlit þitt. Ef þú elst upp í stórborg hefur þú mikið til að bera þig saman við ólíkt smærri bæjum út á landi. Í dag er þó sagan allt önnur þar sem samfélagsmiðlar spila stóran leik í lífi barna og unglinga og þar geta þau borið sig saman við hvað sem er, og meira að segja hluti eða manneskjur sem eru ekki raunverulegar. Það gerist sjaldan að einhver deilir mynd sem sýnir ekki sínar bestu hliðar og þær myndir eru þá teknar frá góðum sjónarhornum og eru oftar en ekki lagfærðar á einhvern hátt. Við sjáum svo myndina og hugsum með okkur hve fullkomin þessi manneskja er og hvað við getum gert til að líkjast þeim en við vitum ekki um alla vinnuna á bak við þessa fullkomnu mynd. Hlutir eins og þessir hafa mikil áhrif á okkur og sálarlíf okkar og geta valdið mikilli óhamingju með eigið útlit og líkama og stundum jafnvel alvarlegum andlegum sjúkdómum eins og átröskun.

bottom of page